Forsvarsmenn sjónvarpsstöðvanna Hringbrautar og N4 saka auglýsingadeild Ríkisútvarpsins um að hafa farið fram með miklu offorsi í aðdraganda heimsmeistaramótsins í knattspyrnu. Minni fjölmiðlar hafi ekki átt möguleika á því að selja auglýsingar fyrir HM vegna þeirra tilboða sem RÚV „lét rigna yfir markaðinn.“
Í samtali við Morgunblaðið í dag segja Sigmundur Ernir Rúnarsson hjá Hringbraut og María Björk Ingvadóttir, framkvæmdastjóri N4 á Akureyri, að samkeppnin á auglýsingamarkaði sé „ofsalega ójöfn.“ Tuttugu manna auglýsingateymi Ríkisúvarpsins hafi getað sópað upp markaðnum í aðdraganda mótsins og gert minni miðlum nær ómögulegt að komast að.
María segist meira að segja hafa fengið þau svör frá fyrirtækjum að þau hafi „farið með allt sitt fé í HM á RÚV.“ Sigmundur Ernir kallar eftir því að hömlur verðir settir á auglýsingasölu RÚV, annað sé „út í hött.“
Ríkisútvarpið geti skákað í skjóli slíks ofureflis að „ef þetta viðgengist í öðrum atvinnugreinum þá væri strax búið að grípa inn í af hálfu samkeppnisyfirvalda,“ eins og Sigmundur orðar það við Morgunblaðið. Hann bætir við að engar breytingar hafi orðið á þessum málaflokki svo áratugum skiptir og því megi ætla að stjórnvöld hygli RÚV umfram aðra miðla.

