Skipuleggjendur tónleika bandarísku rokksveitarinnar Guns ´n´ Roses hafa bætt við 2000 miðum aukalega í sölu og tilkynnt að íslenska sveitin Brain Police hiti upp fyrir tónleikana. Miðarnir verða seldir á show.is
Útlit er fyrir að þetta verði langstærstu tónleikar í sögu Íslands bæði hvað varðar fjölda gesta og umfang tónleikanna sjálfra.
Hljómsveitin kemur með 45 gáma af tækjabúnaði sem vegur um 1300 tonn. Þar á meðal er stærsta svið sem sett hefur verið upp á Íslandi, 65 metra breitt með þremur risaskjáum. Hljóðkerfið er heldur engin smásmíði.
Einnig fylgja með reykvélar, flugeldar og eldvörpur.
Tónleikarnir verða á Laugardalsvelli þann 24. júlí næstkomandi. Miðað við aðra tónleika í tónleikaröðunni, sem nefnist Not In This Lifetime, má búast við að Guns ´n´ Roses spili í allt að þrjá klukkutíma.
Þar á undan munu Brain Police stíga á stokk eins og áður segir.
