Mikill viðbúnaður var þegar útkallið barst og var allt slökkvilið Norðurþings ásamt slökkviliði Þingeyjarsveitar sent á vettvang. Eldurinn kviknaði á milli fjórðu og fimmtu hæðar í ofnhúsi þannig að aðstæður voru erfiðar, en betur fór en á horfðist og gekk slökkvistarf vel.
Ofn 1 í stöðvun
Tvívegis kviknaði smávægilegur eldur aftur út frá glæðum, en var strax slökktur. Áður en slökkvistarf hófst var allt rafmagn til versins aftengt. En ætli að alvarlegt tjón hafi orðið á búnaði? Hafsteinn Viktorsson er forstjóri kísilvers PCC á Bakka.„Við vitum það nú ekki eins og er hversu mikið tjónið er. Lögregla er enn þá með vettvanginn og við ekki fengið aðgang,“ segir Hafsteinn.
„Okkur sýndist í gær að skemmdir væru kannski ekki mjög miklar. Aðstæður eru samt þannig að það tekur einhverjar vikur að laga þetta. Það er nokkuð ljóst að ofn 1 mun ekki framleiða neitt í eina, tvær eða þrjár vikur.“
Tap í rekstri á meðan er töluvert mikið að sögn Hafsteins.
„Óveruleg reykmengun“
„Já, það er það. Þetta er alls ekki gott þegar við erum í uppkeyrslu og vorum einmitt komnir á þann stað að við vorum komin með góð tök á ofninum og hann farinn að framleiða hágæðavöru. Þannig að þetta er ekki gott.“Einhverjar rafmagnstruflanir urðu hjá PCC í gærmorgun en Hafsteinn segir ekkert samhengi þar á milli. Þá segir hann reykmengun vegna bilunar og brunans hafa verið óverulega.
„Í hvert skipti sem við þurfum að slökkva á ofninum þá þurfum við að opna neyðarskortsteinana og þá kemur smá reykur frá verksmiðjunni. En hann var óverulegur.“