Innlent

Mikilvægt að sveitarfélög vinni saman að málefnum heimilislausra

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Reykjavík er eina sveitarfélagið á Höfuðborgarsvæðinu sem starfrækir neyðarúrræði vegna utangarðsfólks. Sviðstjóri Velferðarsviðs Reykjavíkurborgar segir nauðsynlegt að sveitarfélögin vinni saman að lausn þessara mála.

Málefni heimilislausra eru margþætt enda eru þeir ólíkur hópur. Annars vegar er um þá að ræða sem eru utangarðs vegna áfengis- eða vímuefnaneyslu og hins vegar þá sem bíða eftir félagslegu húsnæði.

Í svari þáverandi Félagsmálaráðherra við fyrirspurn frá árinu 2017 kemur fram að Reykjavíkurborg stæði sig best í að útvega fólki félagslegt húsnæði en Garðabær og Kjósahreppur verst.

Reykjarvíkurborg rekur Gistiskýlið við Lindargötu og Konukot svo dæmi séu nefnd. Þangað eru aðilar velkomnir óháð búsetu.

„Já við greiðum allan kostnað við Gistiskýlið og rekum það. Við höfum ekki vísað fólki úr öðrum sveitarfélögum frá ef pláss er í skýlinu. Í fyrra voru um 150 gistinætur þar frá fólki sem kom annars staðar frá. Í Konukoti voru gistinætur fólks úr öðrum sveitarfélögum en Reykjavík 750 eða 25% af heildargistinóttum,“ Segir Regína Ástvaldsdóttir, sviðstjóri Velferðarsviðs.



Þá segir hún mikilvægt að sveitarfélögin alls staðar að á landinu setjist niður og vinni saman að lausn þessara mála.

Er samtal á milli sveitarfélaga þegar kemur að þessum málaflokki?

„Já það er samtal á milli sveitarfélaga. Við eigum í samstarfi við sveitarfélögin á höfuðborgarsvæðinu og ég finn ekki fyrir öðru en áhuga hjá þeim til að taka þátt í þessum málum. Þá hefur það ekki komið í framkvæmd að önnur sveitarfélög borgi fyrir viðveru íbúa sinna í gistiskýlinu við Lindargötu,“ segir Regína.

Þá er ljóst að Reykjarvíkurborg beri þungann í málefnum utangarðsfólks en vandi þeirra hefur oft verið kallaður höfuðborgarvandi.

„Það er eðlilegt að fólk leiti til höfuðborgarinnar sem á í fíkniefnavanda eða margþættum vanda. Þetta er þekkt erlendis og þar er mjög algengt að ríkið komi líka að þessum málaflokki vegna þess að það er vitað að höfuðborgin hefur ákveðið aðdráttarafl fyrir þennan hóp,“ segir Regína.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×