Innlent

Dró upp hníf í viðræðum við lögreglu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Lögreglumenn lenda í ýmsu á vaktinni.
Lögreglumenn lenda í ýmsu á vaktinni. Vísir/Vilhelm
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði ökumann í hverfi 108 síðdegis í dag. Maðurinn reyndist undir áhrifum fíkniefna. Þegar lögreglumenn ræddu við manninn dró hann upp hníf og var í kjölfarið handtekinn og farið með hann niður á lögreglustöð. Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu.

Þá var lögreglu tilkynnt um bifreið sem ekið var um á felgunni einni saman, einnig í hverfi 108. Bíllinn fannst nokkru síðar og var ökumaðurinn handtekinn ölvaður í heimahúsi. Hann var vistaður í fangageymslu.

Á þriðja tímanum var svo tilkynnt um umferðaróhapp á Seltjarnarnesi. Ökumaðurinn stakk af en var handtekinn nokkru síðar í heimahúsi, einnig ölvaður. Sá var vistaður í fangageymslu.

Á fjórða tímanum barst lögreglu tilkynning um tvær konur að slást við Austurvöll. Slagsmálin voru yfirstaðin og konurnar á bak og burt þegar lögreglu bar að garði.

Skömmu eftir hádegi var tilkynnt um vinnuslys í hverfi 221. Maður hafði þar fallið úr stiga við vinnu en meiðsl hans voru minniháttar.

Þá var tilkynnt um tvö umferðaróhöpp til viðbótar, annað í Breiðholti en hitt í Grafarvogi. Í öðru tilfellinu reyndist ökumaðurinn ölvaður en í hinu hafði ökumaður fallið af fjórhjóli. Sá hlaut óveruleg meiðsl, að því er fram kemur í dagbók lögreglu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×