Innlent

Starfsfólk í áfalli eftir hópuppsögn hjá Norðuráli á Grundartanga

Daníel Freyr Birkisson skrifar
Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA.
Vilhjálmur Birgisson, formaður VLFA. Fréttablaðið/Eyþór
Tuttugu starfsmönnum álversins á Grundartanga var sagt upp í gær. Í samtali við Fréttablaðið segir Sólveig Kr. Bergmann, yfirmaður samskipta hjá Norðuráli, að ástæða uppsagnanna sé óhagstæð þróun á rekstrarumhverfi álversins.

„Þetta eru kaldar kveðjur til þeirra sem hafa fórnað sinni starfsævi í uppbyggingu á fyrirtækinu, að vera hengdir út fyrir girðingu eins og gerðist í dag [gær],“ segir Vilhjálmur Birgisson, formaður Verkalýðsfélags Akraness, í samtali við Fréttablaðið.

Hann kveðst hafa fengið að heyra frá nokkrum þeirra sem sagt var upp að starfsmönnum hafi verið tilkynnt um uppsagnirnar í morgun.

„Það er bara staðið þannig að því að þegar fólk mætir til vinnu er það kallað inn á skrifstofu til mannauðsstjóra og framkvæmdastjóra viðkomandi sviðs þar sem því er tilkynnt að þessar uppsagnir séu orðnar að veruleika. Síðan er fólki gefinn kostur á að tæma skápa sína og það síðan leitt út fyrir,“ segir Vilhjálmur.

Sólveig kveðst ekki mega tjá sig um hvernig staðið var að uppsögnum einstakra starfsmanna en að dagurinn hafi verið erfiður. Fólk hafi reynt að gera það eins vel og kostur er á í svona málum.

Vilhjálmur segir þetta dapurlegar aðgerðir. Uppsagnirnar séu enn eitt höggið fyrir Skagamenn og atvinnuöryggi þeirra á sínu heimasvæði og vísar í uppsagnir HB Granda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×