Engin eining virðist vera innan stjórnarflokkanna varðandi útgöngusáttmálann og óvíst hvernig atkvæðagreiðsla muni fara. Margir þingmenn stjórnarflokkanna hafa lýst því yfir að þeir muni greiða atkvæði gegn sáttmálanum og ljóst er að Theresa May, forsætisráðherra Bretlands, hafi ekki meirihluta á bakvið sig sem stendur ef marka má yfirlýsingar margra þingmanna.
„Þá er þetta spurning um hvort einhverjir úr Verkamannaflokknum hugsanlega sitji hjá því valkosturinn er í margra augum algjörlega skelfilegur, að Bretar fari út samningslausir,“ segir Eiríkur sem líkir málinu við marglaga reikningsdæmi sem enga niðurstöðu sé hægt að fá í fyrr en kosið verður um sáttmálann í breska þinginu í desember.
Eiríkur segir það þó vera erfitt fyrir marga þingmenn að greiða atkvæði gegn sáttmálanum þar sem valkosturinn sem blasir þá við er að hans sögn skelfilegur. Það sé því möguleiki að Theresu May gæti tekist að ná sáttmálanum í gegnum þingið.
Útganga Breta hefur veruleg áhrif á Ísland
Að sögn Eiríks myndi útganga Breta hafa veruleg áhrif á Ísland. Bretar séu einn stærsti viðskiptaaðili Íslendinga innan Evrópusambandsins og það skipti miklu máli hvernig viðskiptasamning Bretar gera við Evrópusambandið.„Við lifum að mörgu leyti enn þann dag í dag á því að selja Bretum fisk,“ segir Eiríkur og bendir á að Bretar séu sú þjóð sem standi Íslendingum hvað næst innan sambandsins.
„Þetta hefur veruleg áhrif á Ísland en við vitum ekkert hvernig það spilast út fyrr en það gerist.“
Theresa May „einn þrautseigasti leiðtogi Breta sem við höfum séð“
Framganga Theresu May í málinu hefur vakið athygli en hún hefur reitt marga samflokksmenn sína til reiði með útgöngusáttmálanum. Hörðustu Brexit-sinnar flokksins voru ekki sáttir við skilmála sáttmálans og voru margir sem kölluðu eftir nýju leiðtogavali. Eiríkur segir hana vera einn þrautseigasta leiðtoga sem Bretland hefur átt.„Henni er spáð pólitísku andláti í hverri viku ef svo má segja. Hún hefur komist yfir hverja hindrunina á fætur annarri og með miklu betri hætti en nokkur hefði getað spáð fyrir um. Þetta er einhver þrautseigasti leiðtogi Breta sem við höfum séð,“ segir Eiríkur en ítrekar að stærsta hindrunin sé enn eftir sem er að koma málinu í gegnum breska þingið.