Þetta kemur fram yfirlýsingu frá þeim Hallfríði G. Hólmgrímsdóttur, bæjarfulltrúa í Grindavík, Margréti Þórarinsdóttur í Reykjanesbæ og Tómasi Ellerti Tómassyni í Árborg.
Þingflokkurinn mun funda í dag til að ræða atburði síðustu daga. Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins, hefur sagst ætla að fara yfir kröfu um afsögn þingmennsku og aðra hluti með félögum sínum í þingflokknum síðar í dag.
Skelfilegt og ömurlegt
Einar G. Harðarson, formaður Miðflokksfélags Suðurkjördæmis, sagði í samtali við Vísi fyrr í dag að málið allt væri „skelfilegt“ og „hið ömurlegasta mál“. Hann segir til umræðu að stjórn félagsins muni halda fund nú um helgina til að ræða málið.„Mér þykir mjög vænt um flokkinn og tel að hann geti komið gríðarlega miklu góðu til leiða. Auðvitað verða menn að njóta trausts og geta unnið. Það er enginn tilgangur ef þeir geta ekki unnið.“
Þannig að flokkurinn verður að bregðast við með einhverjum hætti?
„Mér finnst það líklegt, já.“
Sjá má yfirlýsingu bæjarfulltrúanna í heild sinni að neðan.
Bæjarfulltrúar Miðflokksins í Suðurkjördæmi harma þau niðrandi ummæli sem þingmenn Miðflokksins létu falla um samborgara sína og samstarfsfólk sitt þann 20. nóvember síðastliðinn á Klaustur Bar í Reykjavík og náðust á hljóðupptöku.
Við vonum að þingflokkur Miðflokksins komist að ásættanlegri niðurstöðu á fundi sínum í dag fyrir almenning varðandi áframhaldandi þingmennsku þeirra þingmanna sem þarna áttu hlut að máli. Að öðrum kosti óskum við eftir flokkráðsfundi þar sem félagar Miðflokksins taka ákvörðun um framhaldið.
Sveitarstjórnarfulltrúar Miðflokksins í Suðurkjördæmi
Hallfríður G. Hólmgrímsdóttir - Grindavík
Margrét Þórarinsdóttir - Reykjanesbæ
Tómas Ellert Tómasson - Svf. Árborg