„Ég hef aðeins orðið vör við þessa orðræðu á Facebook að fólki finnist að það sé nauðsynlegt að það komi fram í allri orðræðu um þetta mál að um sé að ræða Klaustur Bar en ekki þorpið Kirkjubæjarklaustur sem í daglegu tali er nefnt Klaustur,“ segir Sandra Brá Jóhannsdóttir, sveitarstjóri Skaftárhrepps.
„Ég tek að sjálfsögðu undir það að væri vitaskuld eðlilegt fyrir vandaða umfjöllun að það kæmi fram til að koma í veg fyrir allan misskilning. Sumir fjölmiðlar virðast gæta sín á þessu á meðan aðrir fjalla um þetta með fyrirsagnirnar Klausturþingmenn og Klausturmálið sem getur valdið því að einhverjir leggi saman tvo og tvo og fái út fimm“, segir Sandra Brá en skrifstofan hennar er á Klaustri, þ.e. Kirkjubæjarklaustri í Skafárhreppi.
Rétt skuli vera rétt
Íbúum á staðnum svíður umræðan um Klaustur þegar ekki er tilgreint að um barinn sé að ræða.„Mér og öðrum íbúum hér í okkar litla samfélagi á Klaustri finnst mjög óþægilegt og ekki við hæfi að það glymji stöðugt í fjölmiðlum fréttir um Klausturmálið og Klausturþingmenn,“ segir Sandra.
Hún biður fjölmiðla um að vanda sig og taka „tillit til okkar hér á Klaustri því við tölum ekki svona um annað fólk og talið um Klausturbarmálið og Klausturbarþingmennina, það getur ekki verið svo erfitt að bæta bar aftan við Klaustur, enda skal rétt vera rétt,“ segir Anna Harðardóttir sem er búsett rétt við Klaustur í Skaftárhreppi.