Innlent

Efling slítur sig frá SGS

Samúel Karl Ólason skrifar
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar.
Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar. Vísir/Vilhelm
Samninganefnd Eflingar hefur dregið samningsumboð sitt frá Starfsgreinasambandinu til baka. Þetta var ákveðið á fundi nefndarinnar sem lauk nú í kvöld og var niðurstaðan nærri einróma að sögn Sólveigar Önnu Jónsdóttur formanns Eflingar. Efling vill vísa kjaradeilu sinni og Samtaka atvinnulífsins strax til ríkissáttasemjara en formannafundur Starfsgreinasambandsins hafnaði því á föstudag eftir að sjö félög innan SGS lögðu það til.

Sólveig segir það einnig spila inn í ákvörðun samninganefndarinnar að þegar Efling veitti Starfsgreinasambandinu umboð sitt hafi það verið gert með þeim fyrirvara að Efling teldi rétt að SGS færi í samflot með VR í viðræðum við SA.

Ríkur vilji hefur verið meðal forystufólks Eflingar að sameinast við samningaborðið með VR en félögin eru lang fjölmennustu verkalýðsfélög landsins. Þau hafa hins vegar aldrei farið fram saman í viðræðum við Samtök atvinnulífsins.

Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR sagði fyrr í vikunni að vel kæmi til greina meðal forsvarsmanna VR að vísa deilunni til ríkissáttasemjara.

„Ég og mín samninganefnd bundum miklar vonir við það. Raunin er sú, að mínu mati, að það sé ekki raunverulegur vilji [innan SGS] til að láta að slíku samstarfi verða,“ segir Sólveig í samtali við Vísi.

Sólveig segir samninganefnd Eflingar hafa veitt sér umboð til að ákveða hver næstu skref félagsins verði. Það komi í ljós á morgun eða á föstudaginn.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×