Innlent

„Plögguðu bara tölvuna úr sambandi og hlupu með hana út“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sigurþór Þórólfsson, sem er alltaf kallaður Bóbó, segir tjónið fyrir verslunina mikið.
Sigurþór Þórólfsson, sem er alltaf kallaður Bóbó, segir tjónið fyrir verslunina mikið. vísir/vilhelm
Apple-borðtölvu var stolið um klukkan 21 í gærkvöldi í herrafataversluninni Karlmenn á Laugavegi 77.

Verslunin var opin vegna jólavertíðarinnar þegar þjófarnir létu greipar sópa og segir Sigurþór Þórólfsson, eigandi Karlmanna, að þjófarnir hafi aðeins verið inni í versluninni í nokkrar sekúndur.

„Lögreglan er að vinna í þessu. Þeir komu á staðinn og eru að kanna málið en þetta er ekki þetta útlenda gengi sem er búið að vera að herja á landsmenn heldur Íslendingar,“ segir Sigurþór sem er reyndar alltaf kallaður Bóbó.

 

Hann segir þjófana hafa verið að minnsta kosti tvo.

„Það var einn sem hljóp út strax á eftir hinum. Þetta gerðist rosalega hratt. Það kom fyrst hérna einn inn og plataði afgreiðslumanninn út í horn og síðan kom annar strax á eftir. Þeir vissu greinilega hvað þeir voru að gera. Þeir plögguðu bara tölvuna úr sambandi og hlupu með hana út, bara rosalega hratt. Þetta skeði á nokkrum sekúndum,“ segir Bóbó.

Verslunin Karlmenn er á Laugavegi 77.vísir/vilhelm

Allar viðskiptamannaskrár, pantanir og myndir í tölvunni

Hann segist ekki hafa áttað sig strax á því að tölvunni hafði verið stolið.

„En svo fór ég allt í einu að hugsa: „Bíddu, engin músík?“ Og þá var tölvan horfin þannig að þetta gerðist mjög hratt.“

Bóbó segir að í tölvunni sé mikið af verðmætum gögnum verslunarinnar.

„Þetta er hrikalegt tjón. Þarna eru allar viðskiptamannaskrár, allar pantanir og allar myndir. Svo er svona klaufaskapur í manni að það er langt síðan maður tók „backup,““ segir Bóbó sem segist hreinlega ekki trúa því að það sé einhver að koma á opnunartíma og taka tölvu.

Hann segir lögregluna vera að kanna hvort að þjófarnir hafi náðst á mynd úr myndavélum á móti versluninni þar sem ekki séu myndavélar í og við verslunina sjálfa.

Bóbó setti færslu á Facebook-síðu verslunarinnar í gær þar sem hann bauð fundarlaun fyrir tölvuna vegna gagnanna sem eru í henni.

„Í tölvunni eru mikilvæg gögn og upplýsingar sem nýtast aðeins okkur. Ef einhver þarna úti er með tölvuna okkar eða getur vísað okkur á hana þá fær sá hinn sami jakkaföt skyrtu og bindi að eigin vali, jafnvel frakka,“ segir í Facebook-færslun verslunarinnar.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×