Innlent

Störukeppni er til lítils

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR.
Ragnar Þór Ingólfsson formaður VR. vísir/vilhelm
„Það er til lítils að vera í viðræðum sem ekkert þokast áfram á meðan launþegar tapa segir formaður VR. Til greina kemur að stéttarfélögin fjögur, sem vísað hafa deilu sinni til ríkissáttasemjara, muni slíta viðræðum við Samtök atvinnulífsins (SA) ef enginn árangur næst á sáttafundi á morgun.

„Það hljóta allir að gera sér grein fyrir því að ef ekkert þokast í viðræðunum þá verðum við að gera eitthvað til að ýta þeim áfram,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Verði það niðurstaðan að fundi loknum að lítið hafi þokast munu félögin skoða það alvarlega að slíta viðræðunum formlega. Ragnar segir að það liggi í hlutarins eðli að lagt verði upp með aðgerðaáætlun um það hvernig hægt sé að þrýsta á að „kröfum um mannsæmandi lífskjör verði mætt“.

Þegar samningaviðræður stóðu yfir fyrir þremur árum samþykkti félagið verkfall en ekki kom til þess. Aðspurður hvort ekki sé fullsnemmt að slíta sáttaviðræðum formlega segir Ragnar Þór að það hafi ekkert upp á sig að standa í viðræðum sem ekkert þokast áfram. Mikilvægt sé að fá hreyfingu á þær.

„Það eru engin átök í kortunum nema félagsmenn ákveði og samþykki að fara í slíkt. Það er ekki ákvörðun formanna eða samninganefnda. Við vinnum eftir kröfum sem félagsmenn samþykktu en enn sem komið er höfum við ekki fengið sýnileg viðbrögð. Það er til lítils að standa í einhverri störukeppni,“ segir Ragnar.

Formaðurinn segir að með hverjum mánuði sem samningar dragast verði launþegar af þremur til fjórum milljörðum. Sú tala miðast við kröfugerðir félaganna.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×