Samgönguráðherra kynnti grunn að heildarstefnu stjórnvalda um almenningssamgöngur í dag sem finna má á samráðsgáttinni. Starfshópur leggur til að almenningssamgöngur með flugi, ferjum og almenningsvögnum myndi eina sterka heild. Boðið verði upp á eitt leiðakerfi fyrir allt landið til að auka hlutdeild almenningssamgangna í ferðum milli byggða og stuðla þannig að umhverfisvænni, öruggari og þjóðhagslega hagkvæmari umferð um landið.

Töluverður fjöldi fólks ferðast með almenningsfarartækjum ýmiss konar í dag en áætlanir þeirra eru ekki endilega samstilltar. Þegar hafi verið ákveðið að auka niðurgreiðslur í flugi og þær verði auknar á öðrum sviðum einnig.
Til að byggja upp samþætt kerfi þyrfti að byggja upp skiptistöðvar á helstu stöðum og öðrum minni innan tiltekinna landsvæða, jafnvel í samstarfi við einkaaðila.
„Þannig að þar eru bæði sóknarfæri fyrir landshlutasamtökin eða aðra þá sem hugsanlega myndu reka þetta kerfi. Til að takast á við að byggja upp og það verða meiri fjármunir í þessu en við höfum séð á undanförnum árum. Borgarlínan, rímar hún vel við þessa hugmyndafræði? Hún rímar algerlega við þessa hugmyndafræði,” segir samgönguráðherra.
