Lífið

Samfélagsmiðlar loga vegna frétta af meintu framhjáhaldi Vilhjálms Bretaprins

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Hertogahjónin af Cambridge, Katrín og Vilhjálmur, í páskamessu um síðustu helgi.
Hertogahjónin af Cambridge, Katrín og Vilhjálmur, í páskamessu um síðustu helgi. Vísir/Getty
Þrálátur orðrómur um meint framhjáhald Vilhjálms Bretaprins hefur verið áberandi umfjöllunarefni á samfélagsmiðlum síðustu daga. Slúðurmiðlar hafa fjallað um orðróminn, sem nær enginn fótur virðist þó fyrir, nú í apríl.

Tímaritið In Touch sló orðrómnum upp á forsíðu sinni í byrjun þessa mánaðar, fyrst „rótgróinna“ miðla. Blaðið greindi frá því að Vilhjálmur hafi haldið fram hjá eiginkonu sinni, Katrínu hertogaynju af Cambridge, með Rose Hanbury, markgreifafrú af Cholmondeley og nágranna hertogahjónanna.

Rose Hanbury, markgreifafrú og samkvæmisljón.Vísir/getty
Var Vilhjálmur sagður hafa átt í tygjum við Hanbury á meðan Katrín gekk með yngsta barn þeirra, Lúðvík, sem fagnaði eins árs afmæli sínu í vikunni.

Breskir fjölmiðlar hafa fæstir snert á orðrómnum en þó hefur verið fjallað um málið á ýmsum slúðurmiðlum undanfarnar vikur. Talsmenn konungsfjölskyldunnar hafa þvertekið fyrir framhjáhaldið en hafa neitað að tjá sig um málið að öðru leyti.

Þá greindi vefmiðillinn The Daily Beast frá því nú í apríl að lögmenn konungsfjölskyldunnar hafi hótað breskum fjölmiðli lögsókn vegna umfjöllunar um hið meinta framhjáhald.

Áður höfðu slúðurmiðlar fjallað um sögusagnir af meintum vinslitum Katrínar og áðurnefndrar Hanbury, sem hafa verið góðar vinkonur um árabil og áberandi í bresku samkvæmislífi. Þeim sögusögnum hefur einnig verið vísað á bug.

Notendur á samfélagsmiðlum hafa tekið við sér undanfarna daga og margir lýst yfir megnri óánægju með meinta hegðun Vilhjálms, líkt og sjá má í færslunum hér að neðan.

Eins og þekkt er hafa meðlimir bresku konungsfjölskyldunnar ítrekað þurft að sitja undir óvæginni umfjöllun götublaðanna. Nú síðast hlaut Meghan Markle, hertogaynja af Sussex og eiginkona Harry Bretaprins, illa útreið í slúðurmiðlum, sem sögðu hana erfiða og stjórnsama.

Þá var einnig fjallað ítarlega um meinta erfiðleika í samskiptum svilkvennana Meghan og Katrínar svo mánuðum skipti, þó að þeir orðrómar virðist nú að mestu hafa vikið fyrir áðurnefndum sögusögnum af Vilhjálmi.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×