„Mér fannst þetta svo mikið bull í þeim,“ segir Bára í samtali við Vísi, innt eftir því af hverju hún hafi ákveðið að birta reikningsyfirlitið. „Ég er hætt að skilja þessa menn. Mér líður eins og ég sé í leiðinlegu forræðismáli.“
Í yfirlitinu sést að ekki bárust háar óútskýrðar greiðslur frá fyrirtækjum eða einstaklingum inn á reikninga Báru á tímabilinu en hún sendi Vísi yfirlit yfir færslur á tveimur bankareikningum sínum. Strokað hefur verið yfir stöðu og númer reikninganna, nöfn maka og barns auk föðurnafna vina hennar í millifærslunum. Yfirlitin má sjá neðst í fréttinni.
Bára lætur jafnframt fylgja útskýringar á nokkrum hæstu greiðslunum. 50 þúsund krónur frá Behcet‘s á Íslandi, samtökum um sjúkdóminn sem Bára er með, voru lagðar inn á reikninginn vegna flugferðar sem hún fór á þeirra vegum. Þá greiddi Sýn hf. Báru 40 þúsund krónur þann 12. desember fyrir myndefni, sem Bára tók á Klaustri þann 20. nóvember, til að nota í fréttum Stöðvar 2.

„Ég er ekki að fá neinar upphæðir frá neinum,“ segir Bára jafnframt í samtali við Vísi.
Bára var gestur á Klaustur bar í miðbæ Reykjavíkur að kvöldi 20. nóvember. Tók hún upp samtöl Gunnars Braga Sveinssonar, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur, Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar og Bergþórs Ólasonar, þingmanna Miðflokksins, en auk þeirra sátu tveir þáverandi þingmenn Flokks fólksins við drykk.
Þingmennirnir hafa haldið því fram að Bára hafi brugðið sér í dulargervi erlends ferðamanns umrætt kvöld. Þá hafa þeir óskað eftir upptökum úr myndavélum umrætt kvöld og telja hana ekki hafa verið eina að verki. Nýjasta krafan er sú að fá upplýsingar um greiðslur inn á reikning Báru.
Haft var eftir Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur lögmanni Báru Halldórsdóttur í kvöldfréttum RÚV að krafa Miðflokksmanna um aðgang að bankareikningi og yfirliti yfir símtöl og smáskilaboð til og frá Báru væri afar óvenjuleg og varla svaraverð. Ekkert óvenjulegt sé heldur í gögnum frá Báru.
Vísir er í eigu Sýnar hf.




