Körfubolti

Darri Freyr: Ljótur sigur en þetta hafðist

Helgi Hrafn Ólafsson skrifar
Darri í stuði.
Darri í stuði. vísir/bára
Darri Freyr Atlason, þjálfari Vals, var að vonum sáttur með 96-100 sigur á Keflavík í kvöld í öðrum leik liðanna í úrslitaeinvíginu í Dominos-deild kvenna.

„Já, þetta var ljótur sigur en hafðist,“ sagði hann en Valur leiddi ekki nema tíu mínútur í leiknum, þar af seinustu sjö mínúturnar. „Úrslitin snúast ekki um neitt annað en að sækja þrjá sigra,“ sagði Darri Freyr.

Eins og áður sagði voru Keflvíkingar með foystu mest allan leikinn en Darri ræddi við sínar stelpur í hálfleik og fullvissaði þær um að þetta væri ekkert mál.

„Við töluðum um það í hálfleik að það skipti engu máli hvernig staðan er svo lengi sem við erum inni í leiknum þegar það eru tvær mínútur eftir,“ sagði hann og átti erfitt með að segja til um hvernig þær rauðklæddu hefðu unnið þennan leik.

Valsarar voru með færri skiptingar en Keflavík í leiknum og héngu lengi á sama liði. Darri Freyr fannst að sínar stelpur hefðu bara harkað þennan leik til að sækja sigurinn og fannst að Valur hefði getað spilað miklu betur.

Valsstúlkur áttu erfiðara með að stöðva Brittanny Dinkins í þessum leik og Darri Freyr sagði að þær ættu kannski bara að líta á þennan leik sem tapleik til að læra meira af honum og gera enn betur í leik þrjú.

 „Ég segi þér á morgun hvað fór úrskeiðis,“ sagði hann brosandi enda hafa Valsarar nú tekið 2-0 forystu í úrslitaeinvíginu og eiga næsta leik á sínum heimavelli.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×