Innlent

Gerir ráð fyrir leigubílum án gjaldmæla og afnámi fjöldatakmarkana atvinnuleyfa

Vésteinn Örn Pétursson skrifar
Núverandi lög um leigubifreiðar hafa verið í gildi síðan 2001.
Núverandi lög um leigubifreiðar hafa verið í gildi síðan 2001. Vísir/Getty
Drög að frumvarpi til nýrra laga um leigubifreiðar hér á landi hefur verið birt í samráðsgátt stjórnvalda til umsagnar. Frumvarpið er samið í samgöngu- og sveitastjórnarráðuneytinu og er meðal annars ætlað að tryggja að íslenska ríkið standi við alþjóðlegar skuldbindingar samkvæmt samningum evrópska efnahagssvæðisins.

Í tilkynningu á vef Stjórnarráðsins kemur fram að frumvarpið byggi að mestu á tillögum starfshóps um endurskoðun regluverks um leigubifreiðaakstur sem skipaður var síðla árs 2017 og skilaði tillögunum af sér í formi skýrslu í mars á síðasta ári.

Meðal þeirra breytinga sem frumvarpið leggur til eru afnám takmörkunarsvæða, fjöldatakmarkana atvinnuleyfa og skyldu leigubifreiða til að hafa afgreiðslu á leigubifreiðastöð. Þá kæmu kröfur til þeirra sem hyggjast starfa við akstur leigubifreiða til með að breytast.

Tvær tegundir leyfa

Frumvarpið gerir ráð fyrir tvenns konar leyfum sem tengjast leigubílaakstri, að því er fram kemur á vef Stjórnarráðsins:

„Atvinnuleyfi mun veita réttindi til að aka leigubifreið í eigu rekstrarleyfishafa í atvinnuskyni, rekstrarleyfi mun veita réttindi til að reka eina leigubifreið sem er í eigu rekstrarleyfishafa eða skráð undir umráðum hans og aka til að aka henni í atvinnuskyni.“

Frumvarpið gerir einnig ráð fyrir því að leyfilegt verði að aka án þess að stuðst sé við gjaldmæli, að því gefnu að fyrir fram verið samið um heildarverð fyrir ekna ferð. Hægt verði að greina á milli leigubifreiða með eða án gjaldmælis út frá mismunandi merkingum þeirra.



Núverandi lög um leigubifreiðar hafa verið í gildi frá árinu 2001.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×