Af þeim svarendum sem tóku afstöðu til könnunarinnar sögðust 34 prósent mjög andvíg því að þriðji orkupakkinn taki gildi á Íslandi, 16 prósent kváðust frekar andvíg, 19 prósent bæði og, 17 prósent frekar fylgjandi og 13 prósent mjög fylgjandi. Athygli vekur að 28,5 prósent þátttakenda í könnuninni tóku ekki afstöðu til spurningarinnar.
Lítill stuðningur við þriðja orkupakkann virtist meðal stuðningsmanna ríkisstjórnarflokkanna en tæplega helmingur þeirra (49 prósent) kvaðst andvígur innleiðingu þriðja orkupakkans og rúmur fjórðungur (27 prósent) fylgjandi. Aðra sögu er að segja af stuðningsfólki Miðflokks og Flokks fólksins, en 91 prósent þess kveðst mjög andsnúið pakkanum.

Þá er töluverður munur á afstöðu til þriðja orkupakkans eftir lýðfræðihópum. Karlar reyndust jákvæðari gagnvart innleiðingu þriðja orkupakkans en 36 prósent þeirra kváðust frekar eða mjög fylgjandi, samanborið við 24 prósent kvenna.
Andstaða við innleiðingu orkupakkans jókst með auknum aldri en 38 prósemt svarenda 50 ára og eldri kváðust mjög andvíg slíkri innleiðingu, samanborið við 32 prósent svarenda 30 til 49 ára og 29 prósent þeirra í yngsta aldurshópi, sem eru 18 til 29 ára.
Þá eru hlutfallslega fleiri fylgjandi pakkanum á höfuðborgarsvæðinu en landsbyggðinni. Landsbyggðarbúar voru hins vegar líklegri til að segjast andvíg orkupakkanum, 63 prósent, heldur en þau af höfuðborgarsvæðinu, 43 prósent.
Nánar má fræðast um könnunina hér.

Úrtak: Einstaklingar 18 ára og eldri valdir handahófskennt úr hópi álitsgjafa MMR
Könnunaraðferð: Spurningavagn MMR
Svarfjöldi: 941 einstaklingur
Dagsetning framkvæmdar: 30. apríl til 3. maí 2019