Bára Halldórsdóttir braut persónuverndarlög þegar hún tók upp samtal þingmanna á barnum Klaustri í nóvember í fyrra. Stjórn Persónuverndar komst að þeirri niðurstöðu á fundi sínum í dag en Báru var þó ekki gert að greiða sekt.
Viljinn greinir frá þessu í kvöld. Í frétt Viljans segir jafnframt að Báru hafi verið gert skylt að eyða upptökunum af barnum umrætt kvöld og senda Persónuvernd staðfestingu á að svo hafi verið gert eigi síðar en 5. júní næstkomandi.
Samkvæmt frétt RÚV um málið verður úrskurðurinn ekki birtur á vef Persónuverndar fyrr en á morgun að beiðni lögmanns þingmanna Miðflokksins sem ræddu saman á Klaustri þann 20. nóvember, þeirra Sigmundar Davíð Gunnlaugsson, Bergþórs Ólasonar, Önnu Kolbrúnar Árnadóttur og Gunnars Braga Sveinssonar.
Persónuvernd hefur haft Klaustursmálið á sínu borði síðan í desember í fyrra. Þá varð bið á meðferð málsins eftir að þingmenn Miðflokksins fóru með málið fyrir héraðsdóm og kröfðust þess að vitnaleiðslur færu fram í dómsal og að sönnunargagna yrði aflað. Beiðninni var hafnað og úrskurður héraðsdóms svo staðfestur í Landsrétti.
Þá hafnaði Persónuvernd kröfu Miðflokksmanna um frekari gagnaöflun í málinu í lok apríl en þeir höfðu m.a. óskað eftir frekara efni úr eftirlitsmyndavélum umrætt kvöld á Klaustri, upplýsingum um greiðslum inn á reikning Báru og símtöl og smáskilaboð til hennar.
Ekki náðist í Reimar Pétursson, lögmann Miðflokksmanna, Báru Halldórsdóttur eða Helgu Þórisdóttur, forstjóra Persónuverndar, við vinnslu þessarar fréttar.
