Þetta er sérstaklega greinilegt á Instagram, þar sem meðlimir Hatara hafa verið duglegir að birta myndir af ævintýrum sínum í gegnum Eurovision-ferlið. Myndir þeirra hafa hver um sig fengið hundruð athugasemda þar sem ísraelskir og palestínskir fánar eru í fyrirrúmi.
Tvær færslur frá Hatara hafa vakið langsamlega mest viðbrögð. Annars vegar mynd af Palestínufánanum sem birtist á opinberri Instagram-síðu sveitarinnar og hins vegar upptakan af því þegar ísraleskir öryggisverðir gerðu Palestínutreflana upptæka á úrslitakvöldinu. Samanlagt hafa rúmlega 63 þúsund athugasemdir verið ritaðar við færslurnar tvær, sem báðar birtust á laugardagskvöld.
„Það verður að drepa barnið með föður sínum í gasklefa og því næst brenna lík þeirra,“ ritar einn gerviaðgangur til að mynda á hebresku við mynd af dóttur Einars Hrafns Stefánssonar, trommara Hatara og Sólbjartar Sigurðardóttur, eins dansara sveitarinnar.
Þrátt fyrir hótanir í þeirra garð og áhyggjur af viðtökum ísraelskra flugvallarstarfsmanna hefur heimferð sveitarinnar gengið samkvæmt áætlun í dag. Hatari komst klakklaust í flugið sitt frá Ben Gurion-flugvelli í morgun og er hópurinn nú staddur í Lundúnum þar sem beðið er eftir flugi áfram til Íslands. Gert er ráð fyrir að Hatari og fylgdarlið verði komin til landsins klukkan 23 í kvöld.