Ellen segir móður sína, Betty DeGeneres, hafa gifst slæmum manni. Ellen lýsir mikilli reiði sem fylgdi því að geta ekki varið sig gagnvart honum þegar hún var ung.
„Eina ástæðan fyrir því að ég vil ræða þetta er til að aðrar stúlkur lendi ekki í því sama,“ segir Ellen.
Hún segir þennan tíma hafa verið erfiðan þegar misnotkunin stóð yfir. Fjarlægja þurfti annað af brjóstum móður hennar eftir að æxli fannst í því en stjúpfaðir Ellenar sagði henni að hann þyrfti að kanna brjóst Ellenar í framhaldi af því.
„Hann sannfærði mig um að hann þyrfti að þreifa á brjóstunum mínum og gerði það nokkrum sinnum,“ segir Ellen.
Hún segir stjúpföður sinn hafa reynt að brjóta herbergishurð hennar og hvernig hún þurfti að flýja út um glugga.
„Ég vildi ekki segja móður minni frá þessu því ég vildi vernda hana. Ég vissi að það myndi eyðileggja samband hennar því hún var mjög hamingjusöm þó hann væri skelfilegur maður. Ég átti aldrei að vernda hana, ég átti að vernda sjálfa mig.“
ET Canada hefur nú fjallað um málið og má sjá brot úr viðtalinu þar sem sjá má Ellen lýsa atburðarásinni á YouTube-rás miðilsins.
Ellen hefur aldrei opnað sig um málið áður og tekur það greinilega á hana að rifja það upp eins og sjá má hér að neðan.