Fjórar starfstöðvar eru í Slökkviliði Borgarbyggðar, það er í Borgarnesi, Hvanneyri, Reykholti og Bifröst. Æfingin í kvöld mun svo ná hámarki um klukkan níu í Skorradal.
Eitt helsta vandamál slökkviliðsins á svæðinu eru að komast í vatn. Erfitt getur reynst að athafna sig og koma stórum slökkvibílum að Skorradalsvatni sem er lykillinn í því að bregðast við komi upp eldur.
Eins og greint hefur verið frá lýsti Ríkislögreglustjóri í samráði við Lögreglustjórann á Vesturlandi yfir óvissustigi almannavarna vegna hættu á gróðureldum á svæðinu en þar hefur ekki rignt dropa frá því í byrjun maí. Gróður á svæðinu er orðinn mjög þurr og þarf lítið til þess að allt geti farið á versta veg.
Sjá einnig: Öryggi þúsunda ógnað með ótryggum flóttaleiðum

Sumarbústaðaeigendur fá ekki að taka þátt í æfingunni í kvöld
Ólafur Tryggvason, einn sumarbústaðaeigenda í Skorradal, fagnar því að slökkvilið ætli að æfa viðbrögð við gróðureldum á svæðinu í kvöld en spyr sig jafnframt að því afhverju sumarbústaðaeigendur eru ekki einnig fengnir á æfinguna svo þeir geti lagt hönd á plóg og farið í fyrstu aðgerðir komi upp eldur. Það taki slökkviliðið að minnsta kosti tuttugu mínútur að koma á svæðið og þá gæti fjandinn verið orðinn laus.Hann segir að næsti slökkvibíll sé á Hvanneyri og komi til boðunar þurfi slökkviliðsmenn, sem sumir hverjir búa í Skorradal, að keyra fyrst þangað, sækja slökkviliðsbílinn og keyra svo til baka.
Hann segir að eigendur sumarbústaða á svæðinu hafi varpað fram þeim hugmyndum sín á milli að þeir fái þjálfun í því hvernig þeir eigi að bregðast við komi upp eldur á svæðinu og vonast eftir að slökkviliðsstjóri vinni með þær hugmyndir.
Þórður Sigurðsson, varaslökkviliðsstjóri segir að á æfingunni í kvöld séu slökkviliðsmenn einungis að æfa sín störf á vettvangi, til að mynda í vatnsöflun. Hann fagnar hugmyndum sumarbústaðaeigenda og það verði hugsanlega skoðað í framhaldinu að æfa með þeim.

Vatnslaus slökkvibíll í síðasta útkalli í Skorradal
Um miðjan apríl síðastliðinn kom upp eldur í sumarhúsi á svæðinu og var slökkvilið kallað til. Ólafur segir að þegar slökkviliðsmenn hafi komið á svæðið var ljóst slökkvibílinn kæmist ekki að með nokkru móti og því hafi hann ásamt öðrum sumarhúsaeigendum aðstoðað slökkviliðsmenn við að koma slöngum og vatni svo hægt væri að ráðast gegn eldinum.Þegar það útkall kom fyrsti viðbragðsbíll á vettvang frá Hvanneyri og þegar ráðast átti í fyrstu aðgerðir kom í ljós að slökkvibíllinn var vatnslaus. Hann hafði verið notaður vegna gróðurelda, annarsstaðar í Borgarfirði, deginum áður og gleymst hafði að fylla hann að vatni aftur þegar aðgerðum lauk. Þetta staðfestir Þórður í samtali við fréttastofu og segir að um mannleg mistök hafi verið að ræða.
Sjá einnig: Eldur kom upp í sumabústað

Ástand slökkviliðsins betra en í fyrra
Ástand innan slökkviliðs Borgarbyggðar í fyrra var ekki gott. Fáar sameiginlegar æfingar voru haldnar á milli eininga á svæðinu. Í mars 2018 var greint frá því að mikil ólga ríkti innan liðsins og kvörtuðu slökkviliðsmenn við stjórnendur sveitarfélagsins vegna samstarfsörðugleika á milli starfsmanna og stjórnenda slökkviliðsins.Krafa slökkviliðsmanna þá er sú að ráðið yrði í stöður slökkviliðsstjóra og aðstoðarslökkviliðsstjóra. Annars væru þeir líklegir líklegir til að segja upp störfum.
Þá þótti slökkviliðsmönnum æfingar of fáar og illa skipulagðar og vegna þess hafi fáir þeirra staðist skilyrði til að vera fullgildir slökkviliðsmenn og reykkafarar.
Þórður Sigurðsson, varaslökkviliðsstjóri segir að ástandið innan liðsins allt annað í dag. Tekið hafi verið á vandamálum sem hafi verið innan liðsins, æfingar og þjálfun orðið markvissari auk þess sem verið sé að auka tækjagetu slökkviliðsins.
