Handbolti

Markaveisla hjá Frökkum á HM: Nánast með mark á mínútu

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Edouard Kempf hefur skorað 21 mark úr 22 skotum í fyrstu tveimur leikjum franska U-21 árs landsliðsins á HM á Spáni.
Edouard Kempf hefur skorað 21 mark úr 22 skotum í fyrstu tveimur leikjum franska U-21 árs landsliðsins á HM á Spáni. vísir/getty
Franska karlalandsliðið í handbolta skipað leikmönnum 21 árs og yngri hefur skorað samtals 94 mörk í fyrstu tveimur leikjum sínum á HM á Spáni.

Í dag vann Frakkland 14 marka sigur á Kóreu, 46-32, í B-riðli. Í gær unnu Frakkar 29 marka sigur á Nígeríumönnum, 48-19.

Frakkar hafa unnið báða leiki sína á HM með samtals 43 marka mun. Eins og áður sagði eru mörkin alls 94 á aðeins 120 leikmínútum.

Edouard Kempf, hornamaður Paris Saint-Germain, naut sín vel í fyrstu tveimur leikjum Frakka á samtals og skoraði samtals 21 mark úr aðeins 22 skotum.

Þrettán af 14 útileikmönnum Frakka hafa komist á blað á HM og skotnýting franska liðsins er 78%.

Frakkar bjóða væntanlega upp á þriðju markaveisluna þegar þeir mæta Áströlum á föstudaginn. Ástralía hefur tapað fyrstu tveimur leikjum sínum með samtals 55 marka mun.

Síðustu tveir leikirnir í riðlakeppninni verða öllu meira krefjandi fyrir franska liðið. Á laugardaginn mætir Frakkland Svíþjóð og á mánudaginn eigast Frakkar og Egyptar við í lokaumferð riðlakeppninnar. Líkt og Frakkar eru Svíar og Egyptar með fjögur stig í B-riðli.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×