Enski boltinn

Ætla að á­frýja rauða spjaldinu

Ágúst Orri Arnarson skrifar
Jhon Duran var rekinn af velli fyrir að stíga á Fabian Schar.
Jhon Duran var rekinn af velli fyrir að stíga á Fabian Schar. Aston Villa/Aston Villa FC via Getty Images

Aston Villa ætlar að áfrýja rauða spjaldinu sem framherjinn Jhon Duran fékk að líta í leik liðsins gegn Newcastle fyrr í dag. Þriggja leikja bann blasir við framherjanum. 

Duran var rekinn af velli eftir rétt rúman hálftíma, Villa-menn voru þá lentir undir og enduðu á að tapa leiknum 3-0.

Duran virtist stíga á bak Fabian Schar eftir að sá síðarnefndi tæklaði hann. Grófum brotum fylgir öllu jafnan þriggja leikja bann.

„Auðvitað [ætlum við að áfrýja]. Auðvitað. Þrír leikir? Það er erfitt að sætta sig við. Því það er ekki einu sinni víst að fóturinn snerti hann,“ sagði Unai Emery, þjálfari Aston Villa.

Jhon Duran var brjálaður og sparkaði í brúsa.Ian MacNicol/Getty Images

Anthony Taylor gaf beint rautt spjald. Atvikið var síðan skoðað í VAR herberginu og ekkert breyttist.

Unai Emery sagði það vera vegna þess að Jhon Duran hefur getið sér orðspor sem grófur leikmaður.

„Já. Það er klárlega út af hans orðspori. Hann sagði fyrirgefðu svo snöggt. Þetta var alls ekki viljandi.“

Duran hefur verið mikilvægur fyrir Aston Villa á tímabilinu og skorað 12 mörk í 25 leikjum. Hann var í byrjunarliðinu í dag fjórða leikinn í röð, meðan Ollie Watkins hefur verið á bekknum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×