Handbolti

Smá byrjunarerfiðleikar hjá strákunum en sannfærandi sigur á Síle

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Jakob Martin Ásgeirsson fagnar með FH síðasta vetur. Hann var markahæstur í fyrsta leik Íslands á HM U-21.
Jakob Martin Ásgeirsson fagnar með FH síðasta vetur. Hann var markahæstur í fyrsta leik Íslands á HM U-21. Vísir/Bára
Íslenska 21 árs landslið karla í handbolta vann sjö marka sigur á Síle, 26-19, í fyrsta leik sínum á heimsmeistaramótinu á Spáni.

Eftir jafnan fyrri hálfleik þá stakk íslenska liðið af í síðari hálfleik sem liðið vann með sjö mörkum, 16-9.

FH-ingurinn Jakob Martin Ásgeirsson var markahæstur í íslenska liðinu með 5 mörk, liðsfélagi hans úr FH, Bjarni Ófeigur Valdimarsson, skoraði fjögur mörk og þá var Haukamaðurinn Orri Freyr Þorkelsson einnig með fjögur mörk.

Íslensku strákarnir þurftu að vakna snemma í morgun og leikurinn fór fram á mjög óeðlilegum tíma eða klukkan tíu um morguninn að staðartíma.

Það mátti sjá það á byrjun leiksins þar sem íslensku strákarnir voru hálfsofandi enn þá. Íslensku strákarnir byrjuðu nefnilega leikinn ekki vel og voru lentir þremur mörkum undir þegar, 5-8, þegar Einar Andri Einarsson tók leikhlé eftir fimmtán mínútna leik í fyrri hálfleik.

Íslenska liðið var búið að jafna metin í 10-10 fyrir hálfleik og tók síðan völdin á vellinum í síðari hálfleiknum.

Viktor Gísli Hallgrímsson fór að verja í markinu og íslensku strákarnir voru duglegir að refsa með mörkum úr hraðaupphlaupum. Viktor Gísli skoraði líka eitt mark sjálfur en samkvæmt opinberri tölfræði mótsins þá varði hann 19 skot af 36 eða 53 prósent skotanna sem komu á hann. Viktor Gísli varði meðal annars þrjú vítaskot.

Næsti leikur íslenska liðsins er á móti Argentína á morgun en í íslenska riðlinum eru líka stórþjóðirnar Danmörk, Þýskaland og Noregur.

Mörk Íslands í leiknum:

Jakob Martin Ásgeirsson 5

Orri Freyr Þorkelsson 4

Bjarni Ófeigur Valdimarsson 4

Gabríel Martinez Róbertsson 3

Darri Aronsson 2

Viktor Gísli Hallgrímsson 2

Sigþór Gunnar Jónsson 2

Sveinn José Rivera 1

Hafþór Már Vignisson 1

Elliði Snær Viðarsson 1

Örn Vésteinsson Östenberg 1




Fleiri fréttir

Sjá meira


×