Fjósið er um fjögur þúsund fermetrar að stærð. Það er mjög tæknivætt og engu var sparað til að hafa þægindin og vellíðan gripanna í fyrsta sæti. Við erum að tala um hátæknifjós í eigu fjölskyldunnar í Gunnbjarnarholti.
„Þegar allt er komið í fulla notkun hérna þá verður fjöldi gripa hérna um fimm hundruð og það verða hér tvö hundruð og tuttugu til tvö hundruð og fjörutíu mjólkurkýr“, segir Arnar Bjarni Eiríksson, bóndi.

„Já, það er fæðingardeildin, síðan er vökudeildin, síðan er það leikskólinn, grunnskólinn og unglingastigið, menntaskólinn og svo er það samfélagið sjálft, sem eru kýrnar“.
Fjórir mjaltaþjónar eru í fjósinu og sérstaka gardínur sem opnast og lokast sjálfkrafa eftir hitastigi.
„Þannig að núna yfir sumartímann er algjörlega opið í gegnum bygginguna. Síðan fara kýrnar út á beit hérna fyrir framan en þess á milli, eðlilega þegar það er mjaltaþjónn, þá verða þær líka að vera heilmikið inni til þess að fá þá þjónustu sem þeir þurfa, þá kemur það á móti að loftslagið hérna er eins og úti“, segir Arnar Bjarni.
Og það sem meira er, það finnst varla fjósalykt í nýja fjósinu.
„Til þess var leikurinn gerður að það yrði helst ekki fjósalykt, hún er sennilega meiri fyrir utan en hér inni“, segir Arnar Bjarni og hlær.

„Það er svo greinilegt að vatnsdýnurnar eru langsamlega vinsælastar, þar er bara aldrei auður bás“.