Í tilkynningu frá Sigrúnu segir að fyrstu tvo klukkutímana hafi höfrungar fylgt henni eftir. Hún synti frá Vestmannaeyjum til Landeyjasands og hóf sundið klukkan 01:10 í nótt frá Eiðinu á Heimaey.
„Mér leið mjög vel í byrjun sundsins en sjávarföllin, að sögn skipstjórans, voru einkennileg. Því í austurfallinu rak mig til vesturs en ekki austur. Mér varð óglatt og kastaði aðeins upp en annars leið mér ágætlega. Hausinn á mér var góður allan tímann og reyndi ég að hugsa alltaf jákvætt, ég söng í huganum og var alltaf að hugsa um hversu langt ég var komin miðað við önnur sund sem ég hef synt.“

Sigrún er enginn nýgræðingur í sundinu en árið 2015 var hún fyrst íslensk kvenna til að synda yfir Ermasundið.
Hún segist ætla synda þá leið á ný í september næstkomandi. Hún ætlar að synda boðsund í hópi afrekskvenna sem kalla sig Marglytturnar en þær vilja með sundinu vekja athygli á hnignandi lífríki sjávar vegna mengunar og safna um leið áheitum fyrir umhverfissamtökin Bláa herinn.
Vinkonur Sigrúnar mættu í Bítið í morgun til að ræða afrek hennar og starfsemi hóps afrekskvenna.