Sport

Ræða harkalegan niðurskurð á heimsleikunum: „Róum okkur á að taka tíu út eftir fyrstu æfinguna á þriðja deginum“

Birgir Olgeirsson skrifar
Þuríður Erla ræðir harkalegan niðurskurð á CrossFit-leikunum.
Þuríður Erla ræðir harkalegan niðurskurð á CrossFit-leikunum.
Annie Mist Þórisdóttir og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir luku báðar keppni á heimsleikunum í CrossFit sem fara fram í borginni Madison í Wisconsin-ríki Bandaríkjanna. Komust þær ekki í gegnum niðurskurð en aðeins tíu keppendur fengu að halda keppni áfram í gær.

Katrín Tanja Davíðsdóttir komst í gegnum niðurskurðinn og situr í fimmta sæti fyrir síðasta daginn sem og Þuríður Erla Helgadóttir sem er í níunda sæti.

Mikillar óánægju hefur gætt með harkalegan niðurskurð á heimsleikunum og lýsti Annie til að mynda yfir óánægju sinni með þetta fyrirkomulag í gær. Taldi Annie að keppendur hefðu ekki fengið að reyna nóg á sig fyrir þennan harkalega niðurskurð.

Annie hafnaði í tólfta sæti og Sara í tuttugusta sæti. Oddrún Eik Gylfadóttir féll úr leik á föstudag. Björgvin Karl Guðmundsson situr í þriðja sæti karla megin fyrir lokadaginn.

Birna María Másdóttir og Svanhildur Gréta Kristjánsdóttir eru staddar í Madison þar sem þær fylgjast með keppninni en þær ræddu við CrossFit-spekinginn Tommy Marquez í gær þar sem hann sagði marga í uppnámi yfir þessum niðurskurði.

Þuríður Erla sagði við Birnu og Svanhildi að þessi niðurskurður væri ansi harkalegur. „Róum okkur á að taka tíu út eftir fyrstu æfinguna á þriðja deginum. Þeir hefðu alveg geta gert það í kvöld (gærkvöldi) því þá var clean-ið komið,“ sagði Þuríður Erla og vísaði þar til kraftlyftingakeppninnar sem var í gærkvöldi.

Fyrri æfing gærdagsins var spretthlaup og voru nokkrir keppendur sem féllu úr leik eftir fyrri æfingu gærdagsins nokkuð ósáttir að fá ekki að reyna á sig í kraftlyftingunum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×