Sport

Annie Mist fannst ekki sanngjarnt að skera niður í tíu á þessum tímapunkti

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Annie Mist setur spurningarmerki við fyrirkomulag heimsleikana í CrossFit í ár.
Annie Mist setur spurningarmerki við fyrirkomulag heimsleikana í CrossFit í ár. vísir
Annie Mist Þórisdóttir komst ekki í gegnum tíu manna niðurskurðinn á heimsleikunum í CrossFit.



Hún er ekki alveg sátt við fyrirkomulagið í ár og finnst ósanngjarnt að skera niður í tíu á þessum tímapunkti á heimsleikunum.

„Ég veit eiginlega ekki hvað ég á að segja. Ég óska öllum þeim sem komust í gegnum niðurskurðinn til hamingju en mér finnst við ekki hafa gert nógu mikið til að skera niður í tíu strax. Ekki fleira að sinni. Veit ekki hvað tekur við en frá dýpstu hjartarótum þakka ég ykkur öllum fyrir stuðninginn. Það skiptir mig öllu,“ skrifaði Annie Mist á Instagram í kvöld.

Annie Mist, sem hefur tvisvar sinnum orðið heimsmeistari í CrossFit, og Ragnheiður Sara Sigmundsdóttir duttu báðar út eftir spretthlaupsæfingu í dag. Oddrún Eik Gylfadóttir féll úr leik í gær.

Annie Mist var í 2. sæti eftir fyrsta keppnisdaginn á heimsleikunum. Eftir annan keppnisdaginn var hún dottin niður í 12. sætið sem hún endaði svo í. Ragnheiður Sara endaði í 20. sæti og Oddrún Eik í 39. sæti.

Katrín Tanja Davíðsdóttir og Þuríður Erla Pálsdóttir komust í gegnum niðurskurðinn. Fyrir lokadaginn í heimsleikunum er Katrín Tanja í 5. sæti og Þuríður Erla í því níunda.

Bein útsending frá lokadegi heimsleikana í CrossFit hefst klukkan 14:55 á Stöð 2 Sport 3 á morgun. Hægt verður að horfa á beinu útsendingu á Vísi sem býður einnig upp á beina textalýsingu frá gangi mála á morgun.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×