Búi Vilhjálmur Guðjónsson er hættur sem þjálfari Hauka í Inkasso-deild karla. Halldór Jón Garðarsson, formaður knattspyrnudeildar Hauka, staðfesti þetta við Fótbolta.net.
Búi stýrði Haukum í síðasta sinn þegar liðið gerði 1-1 jafntefli við Aftureldingu á fimmtudaginn. Haukar eru í 10. sæti Inkasso-deildarinnar. Magni getur sent Hauka í fallsæti fái liðið stig gegn Njarðvík síðar í dag.
Búi tók við Haukum þegar Kristján Ómar Björnsson hætti eftir fjórar umferðir í sumar. Búi stýrði Haukum í 14 deildarleikjum. Liðið vann þrjá þeirra, gerði fimm jafntefli og tapaði sex.
Í samtali við Fótbolta.net segir Halldór að eftirmaður Búa verði kynntur á morgun.
Næsti leikur Hauka er gegn Leikni R. á útivelli á fimmtudaginn.
