Innlent

Hvetur eigin samninga­nefnd til að hugsa við­ræður upp á nýtt

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis stéttarfélags.
Árni Stefán Jónsson, formaður Sameykis stéttarfélags.
Trúnaðarmannaráði stéttarfélagsins Sameykis er „fullkomlega misboðið“ hvernig komið er fyrir yfirstandandi kjaraviðræðum félagsins við fulltrúa hins opinbera. Talar ráðið um ólíðandi hægagang í því samhengi og skorar á samninganefnd Sameykis að hugsa kjaraviðræðurnar upp á nýtt ef ekkert þokast á næstu dögum.

Kjarasamningsviðræður milli samninganefnda Sameykis og samninganefnda ríkisins, Reykjavíkurborgar og Sambands íslenskra sveitarfélaga hafa staðið yfir í um hálft ár. Trúnaðarmannaráð Sameykis segir hins vegar að sýnilegur árangur af viðræðunum hafi verið enginn - „og telur ráðið óverjandi að halda viðræðunum áfram á þessum nótum,“ eins og það er orðað í yfirlýsingu frá trúnaðarmannaráðinu.

„Trúnaðarmannaráði Sameykis er fullkomlega misboðið að ríki, Reykjavíkurborg og Samband íslenskra sveitarfélaga skuli bjóða félagsmönnum upp á hægagang af þessu tagi í eins mikilvægu verkefni og kjarasamningar eru.“

Aukinheldur segir ráðið að viðræðuáætlun í deilunum hafi verið framlengd fyrr í sumar. „Í henni kom fram að friðarskylda skyldi standa til 15. september og þá með þeim ásetningi að klára samninga fyrir þann tíma. Nú er nokkuð ljóst að það mun ekki takast og samningaviðræðurnar eru í algjörum ólestri,“ segir trúnaðarráðið sem lýkur yfirlýsingun sinni á fyrrnefndri hvatningu til samninganefndar stéttarfélagsins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×