Innlent

Bein útsending: Hádegisfréttir Bylgjunnar

Jóhann K. Jóhannsson skrifar
Útlit er fyrir að Bergþór Ólason þingmaður Miðflokksins taki aftur við formennsku í umhverfis- og samgöngunefnd en hann lét tímabundið af formennsku í febrúar vegna Klaustur málsins svo kallaða. Óánægja er innan Vinstri grænna með rýran hlut flokksins í forystu fyrir nefndum þingsins. 150. löggjafarþing Íslands var sett í gær og í hádegisfréttum Bylgjunnar fjöllum við um komandi þingvetur.

Við segjum einnig frá því að forseti Alþingis tilkynnti þingheimi við þingsetningu í gær að hann og formaður stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar hefðu í sumar unnið að endurskoðun siðareglna alþingismanna. Ein af tillögunum er að aftengja forsætisnefnd í siðanefndarferlinu.

Þá segjum við frá því að Ríkislögreglustjóra er skylt að innheimta árlega um 200 milljónir króna umfram rekstrarkostnað lögreglubifreiða í ríkissjóð. Svo virðist sem misræmi sé í málflutningi embættisins vegna fréttaflutnings um málefni bílamiðstöðvar ríkislögreglustjóra sem ákveðið hefur verið að loka.

Þá greinum við einnig frá því að greiningardeild Arion banka spáir tveggja prósenta aukningu ferðamanna á næsta ári. Í jákvæðari hliðarspá þar sem gert ráð fyrir nýju flugfélagi Wow air og að áhrif kyrrsetningar Max Boeing véla Icelandair verði ekki lengur til staðar er spáð að ferðamönnum fjölgi um allt að tíu prósent á næsta ári.

Þetta og meira til í hádegisfréttum Bylgjunnar.

Hér má hlusta í beinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×