Haukur Reynisson, flugrekstrarstjóri Icelandair, segir það hafa kallað á mikla og flókna vinnu að afla tilskilinna leyfa fyrir ferjufluginu og þeim fylgi ströng skilyrði. Að sögn Hauks er búið að fá leyfi fyrir allar fimm MAX 8-vélarnar, sem eru hérlendis, - aðeins vantar leyfi fyrir einu MAX 9-vélina, sem félagið hafði fengið.

Athygli vekur að áfangastaðurinn er Toulouse, heimaborg Airbus, helsta keppinautar Boeing. MAX-vélar Icelandair verða þó ekki á sama flugvelli og evrópsku flugvélaverksmiðjurnar heldur á öðrum flugvelli við borgina.
Hálft ár er frá því alls 387 MAX-vélar frá 59 flugfélögum voru teknar úr umferð eftir tvö flugslys sem kostuðu 346 manns lífið. Vélar Icelandair voru kyrrsettar þann 12. mars en forstjóri félagsins, Bogi Nils Bogason, sagði í viðtali við Stöð 2 í síðustu viku að félagið gerði enn ráð fyrir að þær yrðu komnar í notkun á ný í janúar næstkomandi. Viðtalið má sjá hér: