Jón Kristófer S. Jónsson er nýr vörustjóri Skoda-merkisins og að sögn hans verður öll Octavia-línan kynnt hér á landi í september á næsta ári. „Við erum því miður ekki komnir með verð ennþá en þau ættu að vera ljós upp úr áramótum svo að áhugasamir kaupendur geta þá farið að gera pantanir í bíla,“ segir Jón Kristófer. „Þess má geta að við fáum bílinn strax í tengiltvinnútfærslu og verðum eitt af fyrstu löndum Evrópu til að fá hann þannig. Einnig verður öll línan strax fáanleg, bæði sem langbakur (Combi) og í lengri útgáfu (Limo),“ segir Jón Kristófer einnig.
Útlitið er nú orðið keimlíkt Superb og Scala og er bíllinn búinn díóðuljósum að framan sem staðalbúnaði. Þrátt fyrir að bíllinn sé lægri en áður er hann rúmbetri að sögn tæknimanna Skoda. Hann er 4.690 mm að lengd, bæði sem hlaðbakur og langbakur sem er 19 mm lengra en fyrri kynslóð. Auk þess er hann 15 mm breiðari sem þýðir að farangursrými er nú 30 lítrum stærra. Tveir 10,25 tommu skjáir eru í bílnum og framrúðuskjár í sumum útgáfum. Bíllinn er nettengdur og í fyrsta skipti er þrískipt miðstöð eins og í Superb.

Minnsta fáanlega vélin er eins lítra bensínvél með forþjöppu sem skilar 108 hestöflum, en einnig er 1,5 lítra bensínvél fáanleg, einnig með forþjöppu sem skilar 148 hestöflum. Stærsta bensínvélin er tveggja lítra TSI-vél sem skilar 187 hestöflum sem kemur þá með fjórhjóladrifi og sjö þrepa DSG-sjálfskiptingu. Aðeins ein tveggja lítra dísilvél er í boði en hún kemur í þremur aflútfærslum. Sú aflminnsta er 114 hestöfl, svo kemur 148 hestafla útfærsla og loks 197 hestafla með fjórhjóladrifi og sjálfskiptingu. Sú útfærsla kemur bílnum í hundraðið á aðeins 7,1 sekúndu.