Hjartaknúsarinn og Íslandsvinurinn Robin Bengtsson tekur þátt á ný.Getty
Sænska ríkissjónvarpið kynnti í morgun hverjir munu taka þátt í Melodifestivalen, sænsku undankeppninni fyrir Eurovision, á næsta ári. Í hópi þátttakenda eru þrír sem hafa áður keppt fyrir hönd Svíþjóðar í Eurovision.
Hjartaknúsarinn Robin Bengtsson, sem var fulltrúi Svía árið 2017 með lagið I Can‘t Go On, tekur þátt að nýju en hann mun syngja lagið Take a Chance. Bengtsson hafnaði í fimmta sæti Eurovision árið 2017 en þá fór keppnin fram í Úkraínu.
Annar fyrrverandi fulltrúi Svíþjóðar sem tekur þátt í Melodifestivalen á næsta ári er Anna Bergendahl. Hún söng lagið This Is My Life árið 2010, en hún komst þá ekki upp úr undanúrslitariðlinum sem þótti mikill skandall í Svíþjóð, enda fáar þjóðir sem leggja jafnmikið í keppnina og einmitt Svíar. Hún syngur nú lagið Kingdom Come.
Þá má einnig nefna söngkonuna Nanne Grönvall sem flytur lagið Carpool Karaoke. Hún er margreynd í sænsku söngvakeppninni og kom fram með sveitinni One More Time árið 1996 og laginu Den vilda. Íslendingar kannast vel við það lag þar sem Dansaðu vindur í flutningi Eivarar Pálsdóttur er íslensk útgáfa af laginu.
Alls taka 28 lög þátt í Melodifestivalen að þessu sinni. Verður keppt í fjórum undanúrslitariðlum, auk þess að nokkur lög, sem ekki komust beint í úrslit, fá annað tækifæri í sérstökum þætti. Úrslitakövldið fer svo fram 7. mars 2020.