„Eina málið með þennan geðsjúkdóm er að maður veit aldrei hvað hún gæti gert næst. Ég hafði nú þegar séð hana drepa páfagaukinn minn beint fyrir framan mig, hún hafði auðvitað svelt mig stundum og alls ekki farið vel með mig eða húsið. Ég varð stundum bara alveg skíthrædd. Ofbeldið var inni í þessu, hún varð mjög ofbeldisfull þegar hun byrjaði að drekka. Það var oft sem hun kýldi í mig eða sparkaði,“ segir Margrét Lillý Einarsdóttir.
Allt falið út af fjölskyldunni
Hún segir alla sögu sína í Kompás sem birtur er klukkan 9 á Vísi á morgun og á Stöð 2 Maraþon. Í þættinum lýsir hún á einlægan hátt viðvarandi vanrækslu og ofbeldi af hendi móður sinnar frá unga aldri. Hún hefur höfðað skaðabótamál gegn Seltjarnarnesbæ þar sem hún telur barnaverndarnefnd ekki hafa sinnt hlutverki sínu og tengir hún viðbragðsleysið við pólitíska stöðu ömmu hennar á Seltjarnarnesi.„Þetta var allt vel falið út af fjölskyldunni minni. Þetta er of fín fjölskylda til að einhver geti verið veikur. Seltjarnarnes er auðvitað mjög lítið samfélag. Allir þekkja alla, allir vita hver amma mín og afi - og mamma mín eru,“ segir Margrét meðal annars í viðtalinu.
Kompás hefur undir höndum skýrslur frá lögreglu og barnavernd sem sýna fram á að yfirvöld þekktu vel aðstæður stúlkunnar.
Farið verður ítarlega í málið í þættinum og rætt við tengda aðila. Lögmaður Margrétar Lillýjar, Sævar Þór Jónsson, segir að ef barnaverndarkerfið hefði virkað sem skyldi hefðu mæðgurnar báðar fengið viðeigandi aðstoð og stuðning.
„Það er alveg augljóst að kerfið hefur ekki bara brugðist stelpunni heldur líka móðurinni,“ segir hann meðal annars.
Uppfært 25. nóvember klukkan 09:15: Umfjöllun Kompáss í heild sinni má nálgast hér, og horfa má á þáttinn hér að neðan.