„Að mínu mati vantar skýrari stefnu og meira fjármagn, núna strax,“ segir Aneta M. Matuszewska, skólastjóri Retor Fræðslu, sem kennir innflytjendum íslensku.
Í íslenskuskólanum komast færri að en vilja og sumir hafa ekki efni á náminu.

Aneta segist áætla varlega þegar hún segir að innflytjendur hafi greitt 24 milljarða í tekjuskatt á þessu ári. Þeir séu nú þegar búnir að borga fyrir kennsluna með sköttum.
„Sem ættu að koma til okkar tilbaka. Það þarf að nota það fjármagn til að fjárfesta í íslenskukennslu til að skapa okkur framtíð,“ segir Aneta.
Hefur fullan hug á að gera betur
Lilja Alfreðsdóttir, menntamálaráðherra, segir hækkun styrkja vera of litla síðustu ár miðað við fjölgun innflytjenda.
„Já, við teljum það mikilvægt og við nefnum þetta sérstaklega í ríkisfjármálaáætlun. Ég hef fullan hug á því að við gerum betur hvað þetta varðar.
Hvenær má vænta þess að það komi meira framlag?
Við erum að skoða þetta í næstu ríkisfjármálaáætlun því við viljum að aðgengi að tungumálinu okkar sé greitt og gott þannig búum við til réttlátara samfélag og þannig viljum við hafa hlutina.
Er einhver sérstök tala í huga?
Við erum að skoða þetta allt og það er best að sjá hvað kemur út úr því þegar við erum að móta ríkisfjármálaáætlun.
