Innlent

Kannski flekkótt jól fyrir sunnan en hvít fyrir norðan

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Sunnan lands eru rauð eða hvít jól þetta spurningamerki ef marka má hugleiðingar veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands.
Sunnan lands eru rauð eða hvít jól þetta spurningamerki ef marka má hugleiðingar veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands. vísir/vilhelm

Það er meira en nægur snjór fyrir norðan til þess að hægt sé að fullyrða að þar verði hvít jól.

Sunnan lands eru rauð eða hvít jól þetta hins vegar spurningamerki ef marka má hugleiðingar veðurfræðings á vef Veðurstofu Íslands þar sem það hlýnar heldur á næstunni og verður allvíða þýtt syðst á landinu.

„Hvort það dugi til að gera jörð flekkótta verður að koma í ljós en litlar líkur eru á að snjóa taki mikið meira upp en það fram að jólum,“ segir í hugleiðingunum.

Þar kemur jafnframt fram að litlar breytingar verði í veðrinu á næstunni. Norðaustan áttin og élin gefa lítið eftir fyrir norðan og yfirleitt þurrt á Suður- og Vesturlandi.

Þá verður vægt frost víða og spár gefa til kynna að heldur bæti í vind á fimmtudag.

Úrkomubakki nær þá að koma inn á land suðaustan lands og mögulega eitthvað inn á Suðurland að auki, þó ekki fyrr en um kvöldið. Með þessu veðri hlýnar heldur.

Veðurhorfur á landinu:

Norðaustanátt, víða 8-15 m/s. Él N- og A-lands, en lengst af bjartviðri S- og SV-til.

Frost 1 til 7 stig, en hiti um frostmark við SA-ströndina. Norðaustan 13-20 á morgun, hvassast SA- og NV-til. Áfram él um landið N- og A-vert, en þurrt á S- og V-landi. Heldur hlýnandi.

Á fimmtudag:

Norðaustan hvassviðri með snjókomu austantil, éljum um landið N-vert, annars úrkomulítið. Vægt frost, en frostlaust við S-ströndina.

Á föstudag og laugardag:

Ákveðin norðaustlæg átt og slydda eða snjókoma, einkum á A-verðu landinu, en áfram þurrt á SV-landi. Heldur hlýnandi.

Á sunnudag (vetrarsólstöður) og mánudag (Þorláksmessa):

Norðaustanátt með éljum eða slydduéljum N- og A-lands en bjart með köflum SV-til. Vægt frost, en víða frostlaust við ströndina.

Á þriðjudag (aðfangadagur jóla):

Útlit fyrir hæga breytilega átt. Skýjað með köflum, en þurrt að kalla. Frost víða 0 til 5 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×