Innlent

Varað við slæmu veðri og vetrarfærð víða um landið

Kjartan Kjartansson skrifar
Úr Ljósavatnsskarði í fyrradag. Búist var við að veginum yrði lokað til klukkan tíu í morgun.
Úr Ljósavatnsskarði í fyrradag. Búist var við að veginum yrði lokað til klukkan tíu í morgun. Lögreglan

Lokað er fyrir umferð um vegi á norðanverðu landinu vegna veðurs, ófærðar og snjóflóðahættu. Gul viðvörun er enn í gildi fyrir Vestfirði, Norðurland, Austurland og Suðausturland í dag en draga á úr vindi þegar líður á daginn. Varað er við hríðaveðri á norðan- og austanverðu landinu og bálhvössu veðri undir Vatnajökli.

Á Norðurlandi hefur umferð verið lokað um Ljósavatnsskarð, Þverárfjall, Siglufjarðarveg, Öxnadalsheiði og Ólafsfjarðarmúla. Á vef Vegagerðarinnar kemur fram að þar sé þungfært eða þæfingur á þó nokkrum leiðum en annars sé verið að kanna ástand vega.

Á Norðausturlandi er leiðin um Hólasand lokaður vegna veðurs og Mývatns- og Möðrudalsöræfi vegna veðurs og ófærðar. Á Austurlandi er ófært um Vatnsskarð eystra og Fagradal en verið er að skoða aðrar leiðir.

Þá er hringvegurinn lokaður frá Núpsstað vestan Skeiðarársands og austur að Jökulsárlóni á Suðausturlandi.

Færð er betri á landinu vestanverðu utan Vestfjarðar þar sem Klettsháls er ófær og beðið með mokstur vegna veðurs.

Á Suðvesturlandi eru flestar leiðir á láglendi greiðfærar en þó er sagt eitthvað um hálku eða hálkubletti á fjallvegum. Hvasst er á Kjalarnesi, hálka og skafrenningur á Sandskeiði og þæfingsfærð og skafrenningur á Lyngdalsheiði. Á Vesturlandi er nokkuð hvasst á sunnanverðu Snæfellsnesi og þungfært á Fróðárheiði.

Veðurstofan gerir ráð draga fari úr vindi eftir því sem líður á daginn og undir kvöld verði víðast 10-18 m/s. Þá á að lægja meira á Þorláksmessu en áframhaldandi snjókomu eða éljum er spáð við norðurströndina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×