Erlent

Breskur ráðherra sakaður um ítrekað einelti

Kjartan Kjartansson skrifar
Priti Patel hafnar öllum ásökunum um einelti. Hún sagði af sér sem þróunarmálaráðherra árið 2017 þegar í ljós kom að hún fundaði á laun með ísraelskum valdamönnum þegar hún var þar í fríi.
Priti Patel hafnar öllum ásökunum um einelti. Hún sagði af sér sem þróunarmálaráðherra árið 2017 þegar í ljós kom að hún fundaði á laun með ísraelskum valdamönnum þegar hún var þar í fríi. Vísir/EPA

Starfsmenn þriggja ráðuneyta hafa sakað Priti Patel, innanríkisráðherra Bretlands, um að hafa beitt sig einelti. Nýjar ásakanir hafa komið fram eftir að ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins sagði af sér um helgina vegna ósættis við ráðherrann.

Ásakanirnar á hendur Patel eru frá þeim tíma sem hún stýrði þróunarmálaráðuneytinu frá 2016 til 2017 en einnig frá innanríkisráðuneytinu og atvinnumálaráðuneytinu.

Breska ríkisútvarpið BBC segir að nýjar ásakanir hafi nú komið fram frá starfsmönnum skrifstofu hennar hjá þróunarmálaráðuneytinu árið 2017. Þar er Patel sögð hafa niðurlægt opinbera starfsmenn fyrir framan aðra, beitt starfsmenn miklum þrýstingi og látið undirmenn sína telja að henni fyndist þeir allir „vonlausir“. Ásakanirnar eru svipaðar þeim sem Philip Rutnam, ráðuneytisstjóri innanríkisráðuneytisins, setti fram á hendur Patel áður en hann sagði af sér á laugardag.

Patel hafnar öllum ásökununum. Hún sagði af sér sem þróunarmálaráðherra vegna ferðar til Ísraels sem hún fór í án leyfis í nóvember árið 2017.

Kona sem vann fyrir atvinnumálaráðuneytið er sögð hafa fengið um 25.000 pund, jafnvirði rúmra fjögurra milljóna íslenskra króna, þegar hún sakaði Patel um að hafa lagt sig í einelti þegar hún var ráðherra þar. Ráðuneytið viðurkenndi ekki bótaskyldu í málinu sem fór aldrei fyrir dómstóla.

Ríkisstjórnin er sögð standa með Patel en rannsókn á ásökununum stendur þó yfir. Það gæti þó breyst ef mál sem Rutnam, fyrrverandi ráðuneytisstjóri, hefur höfðað gegn innanríkisráðuneytinu vegna ólögmætrar uppsagnar verður tekið fyrir hjá dómstólum. Rutnam fullyrðir að Patel hafi neitað að ræða við sig eftir að þau rifust um eineltisásakanir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×