Innlent

Varar við því að fólk kaupi mót­efna­mælingar á netinu

Eiður Þór Árnason skrifar
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir. Lögreglan

Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir varar fólk við því að gangast undir vafasamar mótefnamælingar. Á upplýsingafundinum í dag sagði hann mikið vera um það að aðilar séu að bjóða fólki að kaupa mótefnamælingar, ýmist sem heimapróf eða á rannsóknarstofu.

Með mótefnamælingu er yfirleitt átt við um blóðpróf sem er ætlað að sýna hvort fólk hafi mótefni gegn kórónuveirunni og hafi þar með sýkst af henni á einhverjum tímapunkti.

Til stendur að hefja þannig mælingar þegar faraldurinn er kominn í rénun en Þórólfur mælir sterklega gegn því að fólk leitist eftir því að fara í slíkar mælingar í millitíðinni.

„Ég vil vara við því að menn fari að kaupa einhver svona próf á netinu. Þau eru oft ekkert mjög áreiðanleg, ekkert á bak við þau og geta þannig gefið villandi niðurstöður.“

Slík próf þurfi að uppfylla ákveðin skilyrði og gæðastaðla ásamt því að vera örugg og áreiðanleg. Hann segir að embætti landlæknis þurfi að taka slík próf til umfjöllunar áður en notkun þeirra sé leyfð og eru þau sömuleiðis háð samþykki heilbrigðisráðherra.

„Við verðum að hafa áreiðanlegar rannsóknarstofur og aðila til að ábyrgjast þessi próf þegar við förum að nota þau. Þau eru ekki komin í notkun hér enn þá.“

Þórólfur sagði á fundinum að ekki fengust marktækar niðurstöður úr víðtækum mótefnamælingum fyrr en að faraldurinn væri kominn í rénun.

Vonast er til þess að það fari að gerast í og upp úr miðjum aprílmánuði og munu slíkar prófanir að hans sögn hugsanlega fara fram á vegum heilbrigðisyfirvalda upp úr því.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×