Innlent

Katrín boðar aðgerðir í ríkisfjármálum vegna veirunnar

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Forsætisráðherra segir stjórnvöld munu gera allt sem til þurfi í þeim tilgangi að hemja útbreiðslu veirunnar.
Forsætisráðherra segir stjórnvöld munu gera allt sem til þurfi í þeim tilgangi að hemja útbreiðslu veirunnar. Vísir/Vilhelm

Sex ný kórónuveirusmittilfelli hafa verið greind á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans í dag. Þau eru því alls orðin 43 talsins. Þar af eru tvö svokölluð innanlandssmit, þau fyrstu sinnar tegundar á Íslandi. Öll þau sem hafa smitast eru við góða heilsu. Neyðarstigi almannavarna vegna kórónuveirunnar hefur verið lýst yfir.

„Það þýðir að meiri þungi mun færast í aðgerðir stjórnvalda og þeirra stofnana sem hafa hlutverk í að hemja útbreiðslu veirunnar en þessi breyting mun ekki hafa áhrif á almenning strax,“ segir Katrín Jakobsdótti forsætisráðherra.

„Það er hins vegar þannig að það er óumflýjanlegt að einhverjar takmarkanir verða settar á mannamót og samkomur á næstunni til að hefta útbreiðsluna. Nú sem fyrr skiptir það öllu máli að við leggjum öll okkar af mörkum til að það megi takast að hægja á útbreiðslunni.“

Katrín segir ljóst að faraldurinn muni hafa áhrif á stöðu efnahagsmála.

„Stjórnvöld undirbúa nú aðgerðir í ríkisfjármálum til að vinna gegn slaka í efnahagsmálum og sama á við um Seðlabankann. Við erum vel í stakk búin, með öflugan gjaldeyrisvaraforða, lágt skuldahlutfall og góðan aðgang að erlendu fjármagni.“

Stjórnvöld muni gera það sem þarf til að hemja útbreiðslu veirunnar og vinna gegn áhrifum hennar á efnahagslífið.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×