Lögreglunni á Norðurlandi Vestra hefur borist áreiðanlegar upplýsingar þess efnis að hlaupbangsar sem innihalda fíkniefni séu í umferð á svæðinu. Óttast er að bangsarnir séu víðar á landinu. Fjallað verður um málið í kvöldfréttum Stöðvar 2.
Einnig verður fjallað um deilur útskriftarnemenda í Menntaskólanum á Akureyri við ferðaskrifstofuna Tripical sem neitar að endurgreiða útskriftarferð. Lögmaður hefur tekið að sér að endurheimta greiðslur fyrir hönd systkina í skólanum og foreldri sem rætt er við í fréttatímanum segir til greina komi að höfða dómsmál.
Í fréttatímanum verður einnig fjallað almennt um stöðu ferðaskrifstofa á Íslandi. Ráðherra ferðamála segir engin sérúrræði fyrir fyrirtækin á borðinu. Haldið verður áfram að fjalla um flugskýli í Skerjafirði sem borgin vill rífa en höfundur Flugsögu Íslands segir skýlið með merkustu flugminjum Íslands og vill skyndifriðun.
Við verðum einnig í miðborginni þar sem göngugötur opnuðu í dag og hjólabrettagarður var tekinn í notkun.
Þetta og margt fleira í kvöldfréttum á samtengdum rásum Stöðvar 2, Bylgjunnar og Vísis kl. 18:30.