Erlent

Cleese segir BBC „bleyður“ að taka „Hótel Tindastól“ úr sýningu

Kjartan Kjartansson skrifar
John Cleese fór með aðalhlutverkið í „Hótel Tindastóli“. Hann er ekki sáttur við stjórnendur BBC sem fjarlægðu einn þáttanna úr efnisveitu.
John Cleese fór með aðalhlutverkið í „Hótel Tindastóli“. Hann er ekki sáttur við stjórnendur BBC sem fjarlægðu einn þáttanna úr efnisveitu. Vísir/EPA

Ákvörðun breska ríkisútvarpsins BBC um að taka þátt úr þáttaröðinni „Hótel Tindastóli“ (e. Fawlty Towers) úr sýningu er „huglaus, duglaus og fyrirlitleg“, að mati Johns Cleese, gamanleikarans sem fór með aðalhlutverkið í þáttunum. Þátturinn var fjarlægður úr efnisveitu BBC vegna kynþáttaníðs sem ein persónan hefur uppi.

BBC segir að þátturinn „Ekki minnast á stríðið“ frá 1975 hafi verið tekinn úr sýningu tímabundið á meðan farið væri yfir efni hans í ljósi kynþáttaníðs sem í honum er að finna. Slíkt sé reglulega gert með eldra efni, sérstaklega hvað varðar úr sér gengið orðfæri.

Cleese fordæmdi ákvörðun BBC á Twitter í dag. Sagði hann BBC nú stjórnað af markaðsfólki og smámunasömum skriffinnum, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

„Ég hefði viljað vona að einhver hjá BBC skildi að það er tvær leiðir til að gera grín að mannlegri hegðun. Önnur er að ráðast beint á hana. Hin er að láta einhvern sem er augljóslega grínfígúra tala fyrir slíkri hegðun,“ tísti gamanleikarinn.

Fjölmiðlar og skemmtikraftar víða um heim hafa endurskoðað eldra efni sitt í kjölfar mikilla mótmæli í Bandaríkjunum og víðar eftir dauða George Floyd. Þannig fjarlægði HBO Max kvikmyndina „Á hverfanda hveli“ úr streymisveitunni vegna þess hversu ólíkir kynþættir eru sýndir í henni. Þá kippti BBC gamanþáttaröðinni „Litla Bretland“ úr sýningum og vísaði til „breyttra tíma“.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×