Hópur lögregluþjóna er kominn í sóttkví eftir að þrír menn sem handteknir voru vegna þjófnaðar og áttu að vera í sóttkví reyndust smitaðir af kórónuveirunni.
Rætt verður við sóttvarnalækni um málið í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan 18:30.
Undirbúningur fyrir skimun á Keflavíkurflugvelli er á lokastigi. Settir hafa verið upp tíu sýnatökubásar og munu um 60 manns koma með beinum hætti að sýnatöku. Farþegum sem neita að fara í skimun eða sóttkví á landamærum Íslands verður vísað úr landi. Sýnt verður frá prófunum á vellinum í fréttatímanum.
Fórnarlamb manns, sem Landsréttur dæmdi í vikunni í fimm ára fangelsi vegna kynferðisbrota gegn þremur börnum, segist varla trúa því að réttlætinu sé náð. Sýkna mannsins í Héraðsdómi hafi haft þau áhrif á hann að hann reyndi að binda enda á líf sitt. Hann vinnur nú úr áföllunum og langar að hjálpa öðrum brotaþolum. Rætt verður við manninn í kvöldfréttum.
Þá fylgjumst við með kvennahlaupinu sem fór fram ídag, skoðum framkvæmdir við nýjar höfuðstöðvar Landsbankans og hittum suðrænan páfagauk sem býr í Vesturbænum og nýtur þess að fara í gönguferðir.
Þetta og margt fleira á samtengdum rásum Bylgjunnar, Stöðvar 2 og Vísis klukkan 18:30.