Innlent

Ræða forsendur kjarasamninga á formannafundi

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Forseti ASÍ á von á hreinskiptum umræðum á formannafundi í dag. 
Forseti ASÍ á von á hreinskiptum umræðum á formannafundi í dag.  Vísir/Egill

Drífa Snædal, forseti Alþýðusambands Íslands, segir að stjórnvöld hafi ekki staðið við nokkur stór mál sem samið var um í lífskjarasamningunum. Forsendur kjarasamninga verða á dagskrá formannafundar ASÍ sem nú stendur yfir. Drífa á von á hreinskiptum umræðum.

Miðstjórn ASÍ hefur boðað formenn allra 48 aðildarfélaga sambandsins til fundar á Hilton hótelinu til að ræða erfiða stöðu á vinnumarkaði og þau stóru verkefni sem bíða haustsins. Til tals hefur komið að virkja uppsagnarákvæði í haust en nokkrir formenn aðildarfélaga ASÍ hafa talað um forsendubrest og svik því stór loforð hafi ekki verið efnd á borð við afnám 40 ára verðtryggðra jafngreiðslulána.

Fréttastofa náði tali af Drífu rétt fyrir upphaf fundarins.

„Forsendur kjarasmaninga komu til umræðu í haust og við ákváðum að hittast eftir þennan undarlega vetur og setja okkur í stellingar fyrir haustið því það kemur von bráðar. Í raun er ekki seinna vænna að taka stöðumat á forsendum kjarasamninga og á þeim verkefnum sem bíða okkur í haust.“

Aðspurð hvort hún finni fyrir ólgu innan sambandsins segir Drífa.

„Ég er nýbúin að halda fundi með stjórnum flestra aðildarfélaga innan Alþýðusambandsins og það eru afskaplega misjöfn viðhorf. Staða ólíkra svæða á landinu er mjög misjöfn þannig að fólk mun taka stöðuna heima í héraði og koma svo með hana inn til okkar en það er alveg ljóst að það eru stór mál sem út af standa sem var samið um í yfirlýsingum stjórnvalda í lífskjarasamningunum fyrir ári síðan“

Hverju áttu von á í dag?

„Ég á von á hreinskiptum umræðum og á því að fá öll sjónarmið upp á borðið. Það er fyrsta skrefið. Þetta er svo sem ekki fundur þar sem við munum ákveða eitt eða neitt en þetta er samráðsfundur. Ég vonast til þess að við verðum nær því að tala okkur niður á sameiginlega línu fyrir haustið eftir þennan fund.“


Tengdar fréttir

ASÍ krefst umfangsmikilla aðgerða fyrir launafólk

Forysta Alþýðusambandsins segir mikilvægt að grípa til aðgerða nú strax sem leggi grunninn að uppbyggingu efnahagslífsins til frambúðar. Þær eigi að tryggja afkomu og örykki launafólks og þeirra sem standi höllum fæti í samfélaginu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×