Innlent

Hafnfirðingar ósáttir við lokun Garðahraunsvegar

Samúel Karl Ólason skrifar
Rósa segir að fjallað verði um málið í skipulags- og byggingarráði á þriðjudag.
Rósa segir að fjallað verði um málið í skipulags- og byggingarráði á þriðjudag. Vísir/Vilhelm

Yfirvöld Hafnarfjarðarbæjar fengu ekki upplýsingar um lokun Garðabæjar á Garðahraunsvegi og hafði þeim verið lofað að það yrði ekki gert fyrr en nýr vegur yrði lagður. Þetta segir Rósa Guðbjartsdóttir, bæjarstjóri Hafnarfjarðar, við Fréttablaðið og segir hún einnig að þetta hafi gríðarleg áhrif á allt umferðarflæði um Norðurbæinn og þjónustuna á Hrafnistu.

Samkvæmt Fréttablaðinu hafa íbúar beggja sveitarfélaga lýst yfir óánægju með lokunina. Þeir þurfi að fara lengri leið og umferð hafi aukist í íbúðahverfinu í Vöngunum.

Rósa segir að fjallað verði um málið í skipulags- og byggingarráði á þriðjudag.

„Við erum að undirbúa viðbrögð okkar og ég á von á því að það verði gert með mjög ákveðnum hætti,“ segir hún.

Guðjón Erling Friðriksson, bæjarritari, segist ekki vita til þess að loforð hafi verið gefið varðandi lokun vegarins og nýja tengingu. Ekki liggi fyrir hvenær nýr vegur verði lagður. Hann segir einnig að betur hefði mátt standa að því að tilkynna málið til Hafnarfjarðar.

Guðjón segir þó að ekki standi til að opna veginn á ný.

„Við getum kannski gert þetta á einhvern hátt betur en við erum skuldbundin gagnvart íbúum á skipulagssvæði Garðahrauns. Að þarna eigi ekki að vera gegnumakstur,“ segir hann.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×