Íslenski boltinn

Fjórtán ára dóttir Óskars Hrafns skoraði fyrir Gróttu í gær

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Emelía Óskarsdóttir í leiknum í Víkinni í gær.
Emelía Óskarsdóttir í leiknum í Víkinni í gær. mynd/eyjólfur garðarsson

Grótta vann 1-3 útisigur á Víkingi í Víkinni í Lengjudeild kvenna í gær. Hin fjórtán ára Emelía Óskarsdóttir gulltryggði sigur Seltirninga þegar hún skoraði þriðja mark þeirra níu mínútum fyrir leikslok.

Þetta var fyrsta mark Emelíu í meistaraflokki. Hún hefur tekið þátt í tveimur af fjórum leikjum Gróttu í Lengjudeildinni í sumar.

Emelía er dóttir Óskars Hrafns Þorvaldssonar, þjálfara karlaliðs Breiðabliks. Áður en hann tók við Kópavogsliðinu stýrði Óskar Hrafn karlaliði Gróttu í tvö ár með frábærum árangri.

Sumarið 2018 endaði Grótta í 2. sæti 2. deildar og í fyrra kom liðið öllum á óvart með því að vinna Inkasso-deildina og tryggja sér sæti í efstu deild í fyrsta skipti í sögunni.

Sonur Óskars Hrafns, Orri Steinn, lék með Gróttu 2018 og 2019. Hann skoraði tvö mörk í sínum fyrsta meistaraflokksleik 2018, þá þrettán ára og 354 daga gamall. Í fyrra skoraði Orri eitt mark í tólf leikjum með Gróttu í Inkasso-deildinni. Síðasta haust samdi hann svo við danska stórliðið FC København.

Emelía byrjar líka snemma að skora, aðeins fjórtán ára og 125 daga gömul. Hinir markaskorarar Gróttu í gær eru líka kornungir. Helga Rakel Fjalarsdóttir, sem kom Gróttu yfir á 13. mínútu, er nítján ára. Á lokamínútu fyrri hálfleiks jók María Lovísa Jónasdóttir muninn í 2-0. Hún er nýorðin sautján ára.

Grótta vann 2. deildina á síðasta tímabili og nýliðarnir hafa farið vel af stað í Lengjudeildinni í sumar. Seltirningar eru í 4. sæti með átta stig og eru enn ósigraðir. Næsti leikur Gróttu er gegn Tindastóli, liðinu í 2. sæti, fimmtudaginn 16. júlí.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×