Enginn greindist með virkt kórónuveirusmit við skimun á landamærum síðasta sólarhringinn. Sýni úr þremur var jákvætt en allir eru þeir með mótefni, samkvæmt nýuppfærðum tölum á Covid.is. Alls eru ellefu nú í einangrun vegna veirunnar á landinu, 92 eru í sóttkví og staðfest smit frá upphafi faraldurs eru 1.914.
Þá voru 1.918 sýni tekin við skimun á landamærunum í gær og 132 á sýkla- og veirufræðideild Landspítalans. Ekkert innanlandssmit hefur greinst síðan í byrjun mánaðar. Við landamærin hafa alls greinst 93 jákvæð sýni frá því að skimun hófst 15. júní en þar af eru aðeins 14 virk smit.
Upplýsingafundur almannavarna og landlæknisembættisins vegna veirunnar verður á sínum stað klukkan 14 í dag. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir og Páll Þórhallsson, verkefnastjóri í forsætisráðuneytinu, fara yfir stöðu mála varðandi opnun landamæra og Covid-19 hér á landi ásamt Rögnvaldi Ólafssyni, aðstoðaryfirlögregluþjóni. Sýnt verður beint frá fundinum hér á Vísi og á sjónvarpsstöðinni Stöð 2 Vísir.