Innlent

Þurftu að skilja bíla eftir á Holtavörðuheiði

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Útköllum vegna ökumanna í vanda vegna veðurs hefur farið fjölgandi nú undir kvöld.
Útköllum vegna ökumanna í vanda vegna veðurs hefur farið fjölgandi nú undir kvöld. vísir/vilhelm

Björgunarsveitir sem kallaðar voru út nú undir kvöld til að aðstoða hátt í tuttugu ökumenn sem lent höfðu í vandræðum vegna ófærðar og veðurs á Holtavörðuheiði hafa náð að fylgja einhverjum bílum niður af heiðinni. Ökumennirnir voru á leið yfir heiðina þegar henni var lokað síðdegis.

Það þurfti síðan að skilja einhverja bíla eftir og ferja ökumenn þeirra niður og voru einhverjir hópar komnir í Staðarskála upp úr klukkan sjö í kvöld að sögn Davíðs Más Bjarnasonar, upplýsingafulltrúa Landsbjargar.

Þá hafa ökumenn lent í vandræðum á fleiri stöðum á landinu vegna óveðursins og hafa björgunarsveitir verið kallaðar út vegna þess.

Þannig bárust tilkynningar um bíla sem sátu fastir á Hellisheiði um það leyti sem heiðinni var lokað fyrr í kvöld.

Skömmu eftir klukkan sjö var síðan tilkynnt um tvo bíla sem sátu fastir á Snæfellsnesi, skammt frá Grundarfirði, auk þess sem tilkynnt var um þrjá bíla í vandræðum í Vatnsskarði, nálægt Varmahlíð.

„Það er minna um foktjón, stakar tilkynningar hér og þar um landið en óhætt að segja að þó nokkuð af ökumönnum víða um land séu í vanda sem björgunarsveitarmenn hafa þurft að aðstoða,“ segir Davíð Már.

Mikið óveður gengur nú yfir landið með tilheyrandi stormi og hríð. Gular viðvaranir tekið gildi um allt land. Vegum hefur víða verið lokað, meðal annars um Hellisheiði og Þrengsli, Mosfellsheiði, Lyngdalsheiði, Bröttubrekku, Öxnadalsheiði, Vatnsskarð og Þverárfjall.

Fréttin hefur verið uppfærð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×